Ég fann hvernig líkaminn vaknaði upp gegnum snertinguna
Mér var vel tekið þegar ég kom og fannst ég velkomin. Mér fannst ég vera að stíga inn í öruggt rými. Það var gott að geta tekið samtal fyrir nuddið og mér fannst auðvelt að tala við þig og opna mig fyrir þér. En það er alls ekki sjálfsagt þegar ég hitti fólk í fyrsta skipti. Það var gott að fá smá leiðbeiningar um hvað við mátti búast þegar farið er í fyrsta skipti.
Mér fannst líka gott að smá stund ein í rýminu til að lenda áður en þú komst inn. Lýsingin var dimm og þægileg. Þó ég sé sjálf ekki hrædd við eigin líkama í mikilli birtu þá held ég að það sé mjög gott að lýsingin sé dempuð til að vera ekki of meðvituð um líkamann að utanfrá. Það hjálpar líka upp á fókus þegar augunum er lokað. Það var gott að liggja á dýnunni og gott pláss. Sumar myndu kannski vilja hafa púða undir höfðuð þegar lagst er yfir á bakið þó ég hafi ekki þurft þess. Tónlistin var þægileg en ég man ekkert eftir henni eftir að nuddið byrjaði.
Uppbyggingin á nuddinu var góð og aldrei of ágeng. Ég upplifði að ég væri að fara í ferðalag í eigin líkama sem þú leiddir mig í gegnum. Ég fann hvernig líkaminn vaknaði upp gegnum snertinguna og hvernig ýmsar tilfinningar vellíðanar, langanir og þakklæti fyrir eigin líkama fylgdu með. Það var einungis á einum tímapunkti að ég upplifði einhverskonar óþæginda vegna orkunnar. Eins og að eitthvað losni en nái ekki að flæða nógu vel. Það var í kringum höfuðið á mér og ég fann þrýsting í höfðinu þegar þú varst þar, sem ekki losnaði strax. Hann minnkaði alveg eitthvað í slökuninni eftir nuddið en var ekki alveg horfinn fyrr en ég vaknaði daginn eftir. Ég hef upplifað svona þrýsting í höfði áður, í annarskonar orkuvinnu og ég vildi bara að þú vissir af þessu. Ég veit ekki sjálf af hverju þetta stafar. Mér fannst nuddið í heild alveg dásamleg upplifun og ég hlakka til að koma aftur.
Eftir nuddið langaði mig eiginlega ekki til að koma til baka en þú hjálpaðir mér með mikilli umhyggju og þar var gott að eiga smá stund til að lenda á jörðinni eftir þetta ferðalag.
Takk fyrir þessa upplifun.